fbpx

Markaðsmenn og fyrirtæki ársins – VERT að velja

by | Nov 7, 2012 | Markaðsmál, Skemmtilegt | 0 comments

Á morgun, fimmtudaginn 8.nóv verður tilkynnt hvaða fyrirtæki hlýtur útnefninguna Markaðsfyrirtæki ársins, og hvaða einstaklingur hlýtur viðurkenninguna markaðsmaður ársins.

Svona verðlaun og útnefningar kalla alltaf fram umræðu um kosti og galla slíkra tilnefninga.  Það er fullkomlega eðlilegt, margir hafa hagsmuna að gæta og fæstum í þessum geira atvinnulífsins er sama hver vinnur svona heiðursnafnbætur.

Við hjá VERT-markaðsstofu höfum til gamans sest yfir þetta og viljum “tippa á” verðlaunahafa.  Við viljum ítreka auðvitað að þetta er ekki endilega okkar tilnefning sem bestu aðilarnir í þessum geira, þó þeir vissulega eigi mikinn heiður skilið fyrir markaðsstarf, heldur er þetta okkar ágiskun á sigurvegarana.

Einn helsti gallinn við þessi verðlaun og þá sem hafa unnið til þeirra undanfarið er að stærðarhagkvæmnin spilar alltaf mjög stóra rullu.  Það er afar erfitt fyrir einstaklinga eða minni fyrirtæki að vinna þessa nafnbót, stórar og kostnaðarsamar auglýsingaherferðir hafa hingað til verið inngöngumiðinn.

Markaðsfyrirtæki ársins

Þrjú fyrirtæki hafa að þessu sinni hlotið útnefningu sem markaðsfyrirtæki ársins, Marel, Mjólkursamsalan og Ölgerðin.

Öll fyrirtækin án efa vel að þessu komin en okkar ágiskun fer til Marel.  Marel hefur undanfarin ár staðið sig gríðarlega vel í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi og markaðshneigð þar innanhúss er til fyrirmyndar.

Markaðsmaður ársins

Eins og flestir vita þá er ekki um útnefningar að ræða í þessum flokki og því erum við að renna verulega blint í sjóinn.

Eftir að hafa farið yfir markaðinn síðasta ár, skoðað útnefningar síðustu ára og rætt þetta fram og aftur yfir Tuborg Jólabjór þá er ágiskun okkar sú að heiðurinn hljóti Framkvæmdastjóri Icelandair, Birkir Hólm Guðnason.

Icelandair er ávallt framarlega í flokki markaðsverðlauna hér innanlands enda verulega faglega staðið að markaðsstarfi þar innanhúss.  Það er reyndar áhugaverð spurning hví fyrirtækið er ekki útnefnt aftur, kannski er það álitið ekki við hæfi hjá Ímark að vera valinn annað árið í röð?  En að okkar mati teljum við  að Birkir yrði mjög vel að þessum verðlaunum kominn, Icelandair er ávallt í fararbroddi ferðamála á Íslandi og atburðir sem fyrirtækið hefur sett á laggirnar svo sem Iceland Airwaves eru orðnir að stórum vörumerkjum á alþjóðavettvangi.

Þetta er a.m.k. álit VERT – við bíðum jafn spenntir og aðrir hinsvegar til að sjá hverjir hljóta þessa nafnbót á morgun.

Hér má svo til gamans sjá listann yfir sigurvegara í þessum flokkum undanfarin ár (sótt á síðu Ímark).

Fyrirtæki sem hafa verið valin Markaðsfyrirtæki ársins: 

2011 – Icelandair
2010 – Borgarleikhúsið
2009 – Nova
2008 – Össur
2007 – Landsbankinn
2006 – Icelandair
2005 – Síminn
2004 – Actavis
2003 – Flugfélag Íslands
2002 – Ölgerð Egils Skallagrímssonar
2001 – Bláa Lónið
2000 – Húsasmiðjan
1999 – SIF
1998 – Tal
1997 – Sláturfélag Suðurlands
1996 – Vaka Helgafell
1995 – Íslenskar sjávarafurðir
1994 – Íslensk ferðaþjónusta
1993 – Olís
1992 – Miðlun
1991 – P. Samúelsson

Markaðsmaður ársins
Með inngöngu ÍMARK í Samtök norrænna markaðsfélaga hóf ÍMARK árið 1998 að velja Markaðsmann ársins en hann er með í vali á Markaðsmanni Norðurlanda.

Aðilar sem hafa verið útnefndir Markaðsmaður ársins:
2011 – Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri, Íslandsstofa
2010 – Sigmar Vilhjámlsson og Jóhannes Ásbjörnsson, eigendur, Hamborgarafabrikkan
2009 – Hermann Guðmundsson, forstjóri N1
2008 – Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri, Borgarleikhúsið
2007 – Andri Már Ingólfsson, forstjóri Primera Travel Group
2006 – Björn Kr. Leifsson og Hafdís Jónsdóttir, eigendur, World Class
2005 – Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri, Menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkurborg
2004 – Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður, Actavis, Samson Holding og Burðarás
2003 – Magnús Scheving, höfundur Latabæjar
2002 – Þórólfur Árnason, forstjóri, Tal
2001 – Bogi Pálsson, forstjóri, P. Samúelsson
2000 – Sigurður Helgason, forstjóri, Flugleiðir
1999 – Kári Stefánsson, forstjóri, Íslensk erfðagreining
1998 – Valur Valsson, bankastjóri Íslandsbanka

 

 

Deildu gleðinni

Tengdar greinar