Ef þú berð ábyrgð á vörumerki er afar líklegt að þú getir ekki svarað þessari spurningu; hvaða áhugaverðu sögur tengjast, eða eru til, um vörumerkið þitt?
Það er mjög slæmt.
Öll vörumerki ættu að eiga sér einhverja sögur. Ég er ekki endilega að tala um sögu í merkingunni: “vörumerkið var búið til af þessum eða hinum árið … og svo gerðist þetta eða hitt”. Sögurnar geta tengst hverju sem er í raun, svo framarlega sem það á einhvern hátt gerir vörumerkið athyglisvert, áhugavert og umtalsvert.
Sögurnar geta verið eins einfaldar og litlar, eða stórar og flóknar.
Þetta eru tvær klassískar: það er kókaín í Coke og það vita bara 6 manns uppskriftina!
Stundum eru sögurnar langar og ítarlegar. Þær eru til þess fallnar að upphefja vörumerkið. Sýna fram á hefðina á bak við merkið. Johnnie Walker hefur lagt mikið á sig í sínu markaðsstarfi að segja söguna á bak við merkið sitt því hefðin er mikilvægur hluti vörumerkisins Johnnie Walker.
Þetta myndband segir þessa sögu snilldarlega. Framkvæmdin á þessu er það góð að maður horfir af áhuga. Þeirra uppskera er að ég veit meira um brandið og ber meiri virðingu fyrir JW. Það er stórsigur þegar kemur að uppbyggingu vörumerkis.
* til upplýsinga: Myndbandið er tekið í einni töku. Engar tæknibrellur. Robert Carlyle lærði textann utan að og gekk á réttum hraða alla leið í gegn, svo propsið passaði. Það tók þó 40 tökur.