Það er alltaf skemmtilegt að fylgjast með hver vinnur íslensku markaðsverðlaunin. Stundum vegna þess að það er svo verðskuldað að gaman er að gleðjast yfir að einhver sem hefur staðið sig vel skuli verðlaunaður, stundum vegna þess að hægt er að rökræða eða skammast yfir því að einhver sem ekki verðskuldar verðlaunin skuli vinna.
Í ár var var markaðsfyrirtæki ársins valið Borgarleikhúsið sem stýrt er af markaðsmanni ársins 2007, Magnúsi Geir Þórðarsyni. Glæsilegur árangur hjá Magnúsi og verðskuldaður.
Markaðsmenn ársins eru Simmi & Jói fyrir að störf sín fyrir Hamborgarafabrikkuna. Vissulega hafa þeir náðu afbragðs árangri og ekki er auðvelt að benda á nokkurn annan sem verðskuldar þessi verðlaun frekar.
Það er þó eitt sem stakk í stúf við þessi markaðsverðlaun. En það er hinn undarlegi rökstuðningur dómnefndar:
“Það var samdóma álit dómnefndar að þeir Simmi & Jói væru öðrum Íslendingum í kreppu góð fyrirmynd. Stundum þarf að standa upp og framkvæma hlutina, hrinda því óhugsandi í framkvæmd og láta ekki úrtölufólk standa í veginum. Á 6 mánuðum hafa þeir klárlega náð að gera Hamborgarafabrikkuna einn vinsælasta veitingastað landsins og svo til skuldlausan.”
Ýmislegt í þessari umsögn dómnefndarinnar hljómar svolítið kjánalega og er að mínu mati ekki til að auka faglega vigt verðlaunanna. Að tala um að þeir Simmi og Jói séu “öðrum Íslendingum í kreppu góð fyrirmynd” því það þurfi “að standa upp og framkvæma hlutina, hrinda því óhugsandi í framkvæmd og láta ekki úrtölufólk standa í veginum” hefur ekki mikið með gæði og árangur markaðssetningar að gera. Simmi og Jói voru auðvitað í einstakri aðstöðu þegar þeir lögðu af stað í þetta verkefni og ekki beinlínis „óhugsandi“ að þeir næðu árangri. Einnig er skrítið að draga það fram að á 6 mánuðum hafi þeir náð að gera Fabrikkuna að vinsælasta stað landsins “svo til skuldlausan”.
Þeir félagar eru harðduglegir og flinkir markaðs- og sölumenn og hafa náð að nýta sér stöðu sína afskaplega vel. Margt mætti tína til sem styður tilnefningu þeirra sem markaðsmenn ársins. Þeir eru með skýra stefnu fyrir staðinn sinn. Þeir undirbjuggu opnun staðarins faglega og eru greinilega með áætlun sem þeir eru að fylgja. Þeir eru með samfellt með góða þjónustu og mikil gæði. Reyndar má segja að Jói og Simmi hafi unnið faglega með alla söluráðana. Röksemdafærsla dómnefndar hefði gjarnan getað minnst á þessa þætti til að styðja val sitt á þeim sem markaðsmönnum ársins.
Annars var ég einmitt að velta því fyrir mér hvers vegna fleiri Íslendingar hafa ekki stofnað fyrirtæki, verið með klst. þátt vikulega á besta tíma í sjónvarpi, farið í viðtöl í blöðum, útvarpsþáttum og öðrum sjónvarpsþáttum um þetta fyrirtæki….. ég var einmitt að pæla í því hvers vegna fleiri Íslendingar hafa ekki drifið í þessu.