Í kapphlaupi þarft þú bara að vera sekúndubroti á undan til að vinna.
Mögulega var sá sem keppti við þig næstum því jafn fljótur. Stóð sig kannski ofboðslega vel. Á jafnvel lof skilið. En það dugar ekki – sá sem stóð sig betur, þó það sé bara aðeins betur, vinnur.
Stundum þarf ekki meira í samkeppninni – bara gera eitthvað aaaðeins betur en samkeppnisaðilinn.
Mörg fyrirtæki eru í það stífri samkeppni að sigurinn vinnst ekki á verðum og vinnst ekki á vöruframboði. Sigurinn vinnst heldur ekki á frábærum staðsetningum verslana eða flottum auglýsingum. Stundum þarftu að hugsa aðeins…. og leysa vandamál viðskiptavina þinna aaaaðeins betur en samkeppnisaðilinn.
Ég sé takmarkaðan mun á BYKO og Húsasmiðjunni. Voða fína búðir, mikið af vörum og ég get ekkert borið saman verðin. En nýlega tók BYKO upp einfalt númerakerfi til að fá þjónustu eða ráðgjöf hjá starfsmanni.
Með þessari litlu þjónustubót náði BYKO þessu sekúndubroti sem oft skilur milli feigs og ófeigs.
Ég fæ jafn góðar skrúfur í báðum búðum, en losna með þessu númerakerfi við angistina sem fylgir því að leita um alla búð að einhverjum sem getur leiðbeint mér. Ég losna við eltingaleik, að þurfa standa yfir starfsmanni meðan hann þjónustar annan, losna við óttann um að týna starfmanninum sem ég var búinn að finna eða að það sé kannski einhver annar starfsmaður laus sem ég er að missa af.
Þessi litla þjónustubót kostar BYKO lítið, en veitir viðskiptavinum sem þurfa aðstoð andlega ró. Það er svo sannarlega verðmætt og það er samkeppnisforskot.