Fyrirtæki eru alltaf að finna nýjar og frumlegar leiðir til að laða að og ná í nýja viðskiptavini en gera oft lítið sem ekkert til að þjóna núverandi viðskiptavinum og halda þeim ánægðum. Af þeim sökum getur brotfall viðskiptavina aukist. Það er ekki skynsamlegt að dæla fullt af peningum í að afla nýrra viðskiptavina ef það er gat í hinum endanum þar sem þeir leka aftur út.
Tökum dæmi um einstakling sem ætlar að kaupa myndavél hjá fyrirtæki sem hefur verið áberandi með sinni kynningarstarfsemi á nýrri tegund af myndavél. Ákörðun um kaup er tekin og við tekur hefðbundið söluferli sem er nokkurn vegin á þennan veg hjá mörgum fyrirtækjum:
– Viðskiptavinur kemur inn í verslun og kaupir vöruna.
– Afgreiðslumaðurinn tekur við greiðslu og býður kúnnanum poka.
– Viðskiptavinurinn fer svo leiða sinna.
Í þessu dæmi hefur fyrirtækið ekki hugmynd um hvort þessi viðskiptavinur muni koma aftur eða versla næst við samkeppnisaðila. Ekkert var gert til þess að reyna að byggja upp frekara samband milli kaupanda og seljanda.
Til hvers að eyða fullt af tíma og peningum við að reyna að ná fólki í viðskipti ef ekkert er gert til að reyna að halda fólki í viðskiptum?
Relationship Marketing snýst í stuttu máli um að AFLA viðskiptavina og HALDA þeim.
Mikilvægt er að laða að og ná í viðskiptavini en skrefin sem fylgja í kjölfarið eru enþá mikilvægari til þess að halda í viðskiptavini og byggja upp samband við þá.
Þetta er fyrsti hlutinn af þremur um Relationship Marketing. Fylgist með.