Það eru væntanlega fáir sem ekki vita af því að heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu hefst á föstudaginn. Það má því ætla að hluti þessa blogs hér hjá Vert muni litast af því næstu vikurnar og þeim markaðslegu þáttum sem í því felast.
Einn helsti þátturinn þar er jú markaðssetning styrktaraðila sem að mótinu koma, sem og þeirra sem reyna að ná athygli fólks í gegnum mótið en án þess að kosta það beint. Á ensku er þetta auðvitað þekkt sem ambush marketing, íslensk þýðing á því gæti verið skæruliðamarkaðssetning.
Eins er gaman að fylgjast með íslenskum fyrirtækjum og hvernig þau reyna að selja vörur sínar eða hafa áhrif á ímynd sína með allskonar boðmiðlun í kringum keppnina. Eitt það athyglisverðasta hingað til hlýtur að vera HM leikur Keflavíkurflugvallar, eða “HM leikur KEF” eins og hann er auglýstur víða á netmiðlum.
Litlu hefur verið til sparað til að gera þennan neitleik glæsilegan. Flott undirvefsíða hönnuð og greinilegt að allt viðmót er eins og best er á kosið. Hinsvegar hlýtur það að vekja spurningar hjá manni af hverju Keflavíkurflugvöllur er að reyna að grípa inná HM æði þjóðarinnar. Getur maður eins átt von á HM leik lífstykkjabúðarinnar?
Aðeins takmarkaður hluti Íslendinga mun fara í gegnum flugvöllinn á næstu mánuðum og því er spurningin hvort að þarna sé verið að beita réttum aðferðum við markaðssetningu. Er ætlunin að auka vitund Íslendinga á verslunum Keflavíkurflugvallar? Eða er markmiðið kannski að tengjast þeim gildum sem HM stendur fyrir?